Þórunn Guðmundsdóttir

Tónskáld, leikskáld og ljóðskáld

Væntanlegur geisladiskur

Eyrnakonfekt

Eyrnakonfekt er heitið á diski með sönglögum eftir Þórunni Guðmundsdóttur sem væntanlegur er haustið 2022. Þessi lög eru ýmist einsöngslög eða fyrir tvo til fjóra söngvara og píanóleikara.

Matur og sumar eru helstu umfjöllunarefnin í lögunum, en líka ástin í ýmsum myndum. Textarnir eru flestir í léttari kantinum, en inn á milli bregður fyrir alvarlegri umfjöllunarefnum. Lögin eru frá ýmsum tímum, en þau eiga það öll sammerkt að útsetningarnar eru nýjar og skrifaðar fyrir þennan hóp. Flestir textarnir eru eftir Þórunni, en einnig eru þarna ljóð eftir öndvegisskáldin Hannes Hafstein og Sævar Sigurgeirsson.

Björk Níelsdóttir stundaði framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Amsterdam. Hún hefur tekið þátt í frumflutningi á fjöldamörgum óperum, leikuppfærslum og tónverkum. Einnig hefur hún túrað með Björk og Florence and the Machine. Björk var valin Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019 og tilnefnd til Grímuverðlaunanna sem söngvari ársins sama ár.

Erla Dóra Vogler stundaði framhaldsnám við Tónlistarháskóla Vínarborgar. Hún hefur sungið í ýmsum tónleikaröðum og komið fram sem einsöngvari með sinfóníuhljómsveitum, kammerhópum og kórum. Geisladiskur Erlu og Evu Þyriar „Jórunn Viðar – Söngvar“ var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins.

Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari lærði við Tónlistarskólann í Reykjavík, Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum og The Royal Academy of Music í London. Hún hefur verið virk í flutningi kammer- og ljóðatónlistar og komið fram með mörgum af fremstu tónlistarmönnum landsins auk þess að halda einleikstónleika og tekið þátt í frumflutningi íslenskra og erlendra verka.

Eyjólfur Eyjólfsson stundaði framhaldsnám í söng í Lundúnum. Eftir það hefur hann meðal annars sungið við Ensku þjóðaróperuna, Opera North í Leeds og Íslensku óperuna. Eyjólfur er meðlimur í tónlistarhópunum Voces Thules og Gadus Morhua Ensemble (ísl.: Hið íslenska þorskatríó) þar sem hann syngur, kveður, blæs í barokkflautu og slær á langspil.

Hafsteinn Þórólfsson hefur starfað sem tónlistarmaður um árabil en hann lauk framhaldsnámi í söng í Lundúnum og í tónsmíðum í Árósum. Hann hefur starfað vítt á tónlistarsviðinu sem flytjandi, allt frá flutningi nútímatónlistar til dægurlaga. Hann hefur frumflutt mörg verk eftir íslensk tónskáld ásamt því að starfa með þekktum listamönnum að verkum þeirra, allt frá Björk til Arvo Pärt.