Þórunn Guðmundsdóttir (1960) hefur getið sér gott orð á undanförnum árum sem tónskáld og leikritahöfundur. Eftir lokapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík sem flautuleikari og söngvari hélt hún til Bandaríkjanna í framhaldsnám þar sem hún lauk doktorsprófi í söng og söngfræðum frá Indiana University. Eftir að hún sneri heim átti hún farsælan feril sem söngkona. Hún söng einsöng með ýmsum kórum, auk þess að halda fjölmarga einsöngstónleika og syngja inn á geisladiska. Einnig kom hún fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kammersveit Reykjavíkur. Hún hefur starfað sem söngkennari um árabil og hefur útskrifað fjöldann allan af söngvurum, m. a. marga af þeim sem syngja í uppfærslunni á Mærþöll í Gamla bíói haustið 2022.
Um aldamótin steig Þórunn sín fyrstu skref í skriftum bæði á tónlist og leiktexta og hefur hún síðan samið töluvert af leikritun, söngleikjum, óperum og sönglögum. Meðal verka hennar eru leikritin Epli og eikur og Systur og söngleikirnir Kolrassa, Gestagangur og Stund milli stríða, en síðast nefnda verkið var valið áhugaverðasta áhugaleikhússýningin árið 2014 og var sýnt í Þjóðleikhúsinu sama vor. Verk hennar hafa hlotið góðar viðtökur hjá gagnrýnendum jafnt sem áheyrendum.
Árið 2021 voru 20 sönglög eftir Þórunni fyrir 1-4 söngvara flutt víða um land.
Fyrstu óperuna, Mærþöll, samdi Þórunn árið 2006 fyrir nemendur í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hún hefur endurskrifað hana með sömu hlutverkaskipan, en smærri hljómsveit og verður hún frumflutt í þeirri mynd í september 2022.
© 2022. Þórunn Guðmundsdóttir.