Óperan Mærþöll eftir Þórunni Guðmundsdóttur verður frumsýnd í Gamla bíói 1. september 2022. Henni er best lýst sem fullorðins ævintýraóperu, en söguþráðurinn er byggður á gömlu íslensku ævintýri, „Mærþallar sögu“. Þórunn skrifar bæði libretto og tónlist.
Markhópurinn er bæði börn og fullorðnir og ætti alls ekki að einskorðast við þá sem eru vanir óperuforminu. Sagan fjallar um baráttu góðs og ills og í henni bregður fyrir álfum, töfrum, álögum og öðru úr ævintýraheimi íslenskra þjóðsagna. Inn í söguþráðinn fléttast líka ástarsaga sem engu má muna að endi illa, en allt bjargast að lokum – eins og í góðum ævintýrum. Tónlistin í verkinu hæfir efniviðnum, en hún er aðgengileg, með klassískum og þjóðlegum blæ, þótt ekki sé vitnað beint í þjóðlög.
Hlutverkin eru samtals ellefu; sjö kvenhlutverk og fjögur karlhutverk, hlutfall sem sést ekki í mörgum óperu- eða leikverkum þar sem hallar yfirleitt á konur. Sönghópurinn er samsettur af annars vegar reynsluboltum s.s. Bjarna Thor Kristinssyni, Hönnu Dóru Sturludóttur og Eyjólfi Eyjólfssyni og hins vegar yngri söngvurum. Má þar nefna Björk Níelsdóttur, Erlu Dóru Vogler, Gunnlaug Bjarnason, Halldóru Ósk Helgadóttur, Heiðdísi Hönnu Sigurðardóttur, Kristínu Sveinsdóttur, Lilju Guðmundsdóttur, Ólaf Frey Birkisson og Þórgunni Önnu Örnólfsdóttur sem hafa öll vakið athygli sem spennandi söngvarar.
Meðleik á sýningum annast 8 manna kammersveit, konsertmeistari er Hildigunnur Halldórsdóttir. Búninga- og leikmyndahönnuður er Eva Björg Harðardóttir og leikstjóri er Bjarni Thor Kristinsson.
Mynd: Þórunn Guðmundsdóttir
Hér sjást Eyjólfur Eyjólfsson og Gunnlaugur Bjarnason í hlutverki Ragnars hertoga og Péturs prins.